512 4811 info@spangir.is

Þrjú plön bitskekkju

Oftast er talað um hin þrjú plön bitskekkju og hugsað er um bit í þremur plönum. Þ.e. láréttu, lóðréttu og þversum.

Lárétt bitskekkja skiptist því í aukið lárétt yfirbit og minnkað lárétt yfirbit.Aukið lárétt yfirbit er þegar framtennurnar skarast á þannig að þær ná ekki saman í biti.
Annaðhvort er skekkjan takmörkuð við stöðu framtanna þannig að um er að ræða rétt bit aftur á jöxlum og því einungis um rangan halla framtanna að ræða. Ef skekkjan hinsvegar nær aftur á jaxla er um að ræða skörun á sjálfum tannbogum og/eða kjálkaskekkju þannig að rekja megi yfirbitið til stöðu tannboga og/eða kjálka. Meðferðarúrræði eru því misjöfn eftir orsök skekkjunnar.

Minnkað lárétt yfirbit eða undirbit („skúffubit“) er þegar neðri tannboginn er framar en efri tannboginn.Hér getur líka verið um skekkju sem rekja megi annarsvegar til stöðu einstakra tanna / tannboga eða til kjálkaskekkju.

Lóðrétt bitskekkja skiptist líkt og lárétt í aukið lóðrétt yfirbit og minnkað lóðrétt yfirbit.

Aukið lóðrétt yfirbit eða djúpt bit er þegar neðrigóms framtennur hverfa aftan við efrigóms framtennur í samanbiti. Þetta bit hefur oftast í för með sér aukið slit framtanna auk þess sem skekkjan getur verið svo alvarleg að framtennur neðrigóms lenda upp í gómi („gómabit“) í bit, þannig að viðvarandi tannholdsbólga aftan við efrigóms framtennur eigi sér stað með tilheyrandi afleiðingum síðar.

Minnkað lóðrétt yfirbit eða opið bit er þegar framtennurnar ná ekki saman í samanbiti þannig að op er á milli framtanna. Slíkt bit truflar alltaf tal auk þess sem erfiðleikar geta skapast við tyggingu.

Krossbit er síðan það bit sem er hvað algengast hjá ungum krökkum. Oftast er um að ræða misræmi í stærð efri- og neðri tannboga þannig að efri tannboginn er of þröngur, eða þrengri en neðri tannboginn og því þvingast neðri tannboginn til hliðar í samanbiti. Þetta getur orsakað skekkju í kjálkavexti og er auðvelt að leiðrétta með notkun gómplötu.

Hafðu endilega samband ef þig vantar frekari upplýsingar

Tannskekkja

Þrengsli / of lítið pláss / skakkar tennur Er algengasta form tannskekkju, þessi tannskekkja er afleiðing misræmis í stærð tannboga og tanna. Þ.e. að of lítið pláss er í tannboganum fyrir tennurnar miðað við stærð tanna. Þrengslin geta valdið því að erfitt getur verið að halda tönnum og tannholdi hreinum auk þess sem aukin hætta er á sliti og í verstu tilfellum geta tennur losnað meira en eðlilegt telst vegna rangrar stöðu einstakra tanna og þar með rangs álags þeirra.

Bil / of mikið pláss Er þegar misræmi er á milli stærð tannboga og stærð tanna, þannig að of mikið pláss myndast í tannboganum miðað við stærð tanna. Oftast eru það skjólstæðingarnir sjálfir sem leita aðstoðar við vandamálum af þessum toga þar sem þeim finnst þetta útlitslýti.

Tannvöntun Á röntgenmyndum er hægt að greina hvort um vöntun á fullorðinstönnum er að ræða, þannig að ekki kemur fullorðinstönn í stað barnatannar. Ef tannvöntun nær yfir fremstu tennurnar þarf oftast að meðhöndla með tannréttingum, hvort sem um ræðir lokun á bilinu sem tannvöntunin er eða opnað sé fyrir„implant“ í stað tannvöntunar.

Vandamál tengt tannskiptum
Er þegar fullorðinstennur koma ekki á tilskildum tíma og barnatennur sitja því lengur en eðlilegt telst. Þetta vandamál er oftast greint af eigin tannlækni og yfirleitt kallar þetta á samvinnu við tannréttingatannlækni, til að meta umfang vandamáls og/eða meðferðarþörf.

Hafðu endilega samband ef þig vantar frekari upplýsingar